Eldri ljóð á íslensku

Ást

Andardráttur þinn
á vörum mínum
mótar ósögð orð.

skuggi ljóss
í myrkrinu

og segir mér að hvísla.

________

Án nafns

Draumar

minningabrot um heiminn

eins og hann var.

Borin á höndum þeirra
sem skilja ekki af hverju,
alltaf fleiri
fleiri.

Hugsjónir
háleit markmið og draumar.
Fyrir fólk eins og þá.

(Ljóð dagsins á Ljóð.is 30.5.2006)

________

Döggin

Ég ligg og strýk fingrunum eftir votu grasi.
Dropar á grönnum fingrum, tindrar á brosandi augu…
Sólgul blóm gægjast undan lyngi eins og feimin, djörf og hugrökk en feimin.
Flýti mér að hrifsa til mín síðustu döggina
á gulu krónublaði.
Morgunn.

________

Án nafns

Daga uppi
undir fölu tungli
einsog ungabarn.
(vafin í lín og lögð að hlýjum barmi)
efi dreginn á langinn
vegna óljósra spurninga um himinn
eða eitthvað annað
svipuðu honum.
Umvafin.

________

Á bak við

Tregafullt augntillit
festi sig við brosið mitt
breytti mér.
Brosið mitt dvínaði
dagurinn lengdist
og ég hætti að horfa í augu þér.
Bak við blikið
er óróleg minning
um allt sem ég gerði
en ég elska þig.
Bak við blikið
er draumur að deyja
og ég spyr ekki aftur
hvort þú elskir mig.

_______

Hafið

Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð
hleypur þú
með útbreyddan faðm
og tryllingslegt blik í augunum,
eins og allt sé að hverfa
nema þú.
Á brjósti þínu brotnar himininn
í ótal smáar agnir
og freyðir hvítur
milli þín og umheimsins,
kitlar þig og kvelur þig
svo þú hrópar upp yfir þig.
Ef þú sérð þér færi á að setjast
pínu stund,
hnígur örmagna niður milli grjóta
og kletta,
ertu vakinn með hraði.
Og með lokuð augu ríst þú á fætur
byrjar að hlaupa
og umvefur gömul fótspor
með hálf syfjulegu brosi.
Fegurð þín er afstæð
þegar þú þýtur áfram.
Kraftur þinn og elja endalaus.
Því í flýtinum gleymdirðu að gæta þín
og grófst úr fjöllunum,
byltir um bátnum.
Og með bátnum hvarf maður konu
sem beið við hlið þér
og bætir nú tárum við veldi þitt.
En ferðalangur,
þú ert þó öruggur hvílustaður.
Og á fingurgómum þínum
dansa þeir sem þig dvelja,
langþreyttir.
Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð
hleypur þú
með útbreyddan faðm
og ég heyri þig brosa,
ég heyri það á rödd þinni
og sé það á blikinu í augum þínum.
Jafnvel þó þú hræðir mig.

________

Líf

Svo bjart
kviknar undir þungu hjarta.
Dregur mig áfram
gegnum daginn,
von
bros
allt fyrir þig.

(a Poem a Day) -góðan dag-

niðar
í þvottavél á bak við hurð
nógu nálægt til að
radda niðinn í hnakkanum á mér.
Herðar stífar,
hugurinn ekki kominn á fætur þótt
fæturnir séu það.
Danskt barnaefni.
Cheerios.
Mjólkurblautar litlar hendur og
glaðvakandi ungi.
Prakkari.
Mjólkurpollar á borðinu.
Góðan dag.